Íslensku menntaverðlaunin 2020

Birte Harksen, leikskólakennari á Urðarhóli, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2020 sem framúrskarandi kennari. Verðlaunin verða afhent á Bessastöðum, föstudaginn 13. nóvember.

Birte er einstaklega natin í starfi sínu. Hún er ávallt með að leiðarljósi að efla og kenna leikskólabörnum í gegnum leik, tónlist og sköpun. Hún er með óþrjótandi hugmyndir að útfærslum að námsefni sem hún býr til úr alskyns verðlausu og endurvinnanlegu efni. Hún fléttar námsefnið inn í samþætt nám leikskólabarna og nær að kveikja áhuga þeirra á efninu með því að gefa sig alla í kennsluna. Hún hefur sjálf mikinn metnað fyrir að gera vel og gefur sig alla í starfið. Hún er á réttri braut í lífinu þar sem geislar af henni og best sést það í að börnin laðast að hennar kennslu aðferðum. Birta er fyrirmyndarkennari og uppspretta hugmynda að kennslu. Hún er óeigingjörn á efni sitt sem hún miðlar til annarra kennara með opnum netsíðum og ávalt fús til að hjálpa til við að innleiða efnið í aðra leikskóla. Birta heldur úti vefsíðunum leikuradbokum.net, bornogtonlist.net og stafagaldrar.net. Birte Harksen er fyrirmyndar kennari.

Birte Harksen
"Ég flutti hingað frá Árósum. Maðurinn minn er íslenskur og við áttum strák sem var fjögurra ára. Okkur langaði til þess að hann myndi læra að tala íslensku. Og mig langaði líka að læra að tala íslensku. Ég er grunnskólakennari að mennt og sá fyrir mér að ég yrði dönskukennari hér. Ég náði að kenna dönsku í nokkra mánuði og það var hrikalegt. En strákurinn minn var á leikskólanum Urðarhóli og leikskólakennararnir þar buðu mér að koma og starfa þar. Ég ákvað að slá til og byrja að vinna á leikskóla. Maðurinn minn sagði: "Birte, við ætlum bara að vera í tvö ár," og ég hugsaði með mér að ég gæti allt eins starfað sem leikskólakennari í tvö ár. Ég væri hvort sem er að fara aftur heim; bekkurinn minn biði mín þar. Um þetta leyti var verið að opna stærra húsnæði á Urðarhóli. Húsnæði sem verður tuttugu ára í nóvember. Ég uppgötvaði að leikskólastigið væri staðurinn fyrir mig og fyrst að ég var svona ánægð, hætti ég að tuða um að fara aftur heim til Danmörku. Og hér er ég enn."

"Ég hélt alltaf að ég væri grunnskólakennari og það væri starfið sem ég hefði mest gaman að. En svo fann ég hvað starf leikskólakennarans er frjálst. Ég hef þessa rosalegu þrá " eða þörf " til að fara alltaf nýjar leiðir. Gera alltaf eitthvað nýtt. Og ef ég fæ einhverja nýja hugmynd með börnunum þá hendi ég mér út í það með þeim og það leiðir okkur eitthvað. En svo á næsta ári langar mig svo bara að gera eitthvað allt annað. Þá hentar leikskólinn sem starfsvettvangur miklu miklu betur, því ég get leyft mér meira. Ég fæ að fylgja hugmyndunum mínum eftir. Þegar ég kem fyrst og banka hjá skólastjóranum og segi: "Mér datt í hug", þá er svarið alltaf: "Já, auðvitað. Prufum það. Finnum lausn.¿ Og þetta traust er ómetanlegt. Svo er náttúrulega líka þessi ótrúlega gleði og einlægni hjá leikskólabörnum. Þau vilja skapa og sækjast eftir tengslum, sem eru svo yndisleg."

"Ég vinn svo mikið með tungumálið í gegnum tónlist. Það er svo mikil málörvun. Það er kannski að hluta til af því að ég þurfti sjálf að læra fullt af íslenskum orðum. Ekki bara lögin, heldur texta, orð og málfræði. Tónlist á leikskóla var stundum eins og biðtími. Syngjum á meðan við bíðum. En ég fór að uppgötva að stundum þurfti bara að gera litlar breytingar á því sem ég var að gera til að börnin yrðu meiri þátttakendur. Og tónlistarstundin breyttist þá úr því að vera biðtími í að vera svo mikið hópefli og gleði. Ég fæ svo margar hugmyndir. Ný lög og nýja leiki. Með verkefninu mínu, Stafagaldrinum, reyni ég að tengja sköpun við læsi. Galdurinn heldur þessu öllu saman, svo allt sem við gerum hafi einhverja töfra. En við erum samt ekki bara að galdra " við erum líka að læra stafina. Og þegar ég fæ svona hugmyndir hendi ég mér í þetta og þetta verður áhugamálið mitt. Ég bý til vef, tek upp myndbönd, klippi myndskeið og set þetta fallega upp. Og þá verður svo gaman að sjá lokaafurðina. Ég vona að verkefnin mín nýtist svo öðrum kennurum sem innblástur og þannig verði til enn fleiri hugmyndir."
Fréttamynd - Íslensku menntaverðlaunin 2020 Fréttamynd - Íslensku menntaverðlaunin 2020 Fréttamynd - Íslensku menntaverðlaunin 2020 Fréttamynd - Íslensku menntaverðlaunin 2020

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn