Sími    441 5000 - 840 2686 

Fréttir

Leikskólanámskrár endurskoðaðar

Leikskólanámskrár endurskoðaðar

19.3.2015

Árganganámskrár leikskólanna í Kópavogi hafa verið endurskoðaðar og var ný útgáfa námskránna kynnt leikskólastjórum bæjarins í vikunni. Við sama tækifæri afhenti nefndin sem vann að endurskoðuninni bæjarstjóra Kópavogs, Ármanni Kr. Ólafssyni, eintak af námskránum. Árganganámskrárnar lýsa starfi árganganna í leikskólum bæjarins.

Námsskrárnar taka mið af aðalnámskrá leikskóla annars vegar og námssviðum leikskól hins vegar. Grunnstoðirnar eru læsi, heilbrigði og velferð, sjálfbærni, sköpun, lýðræði  og mannréttindi, og jafnrétti en námssviðin eru læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menning. 

Sett eru fram markmið fyrir börnin og hvaða leiðir eru bestar til að ná markmiðunum. Námskrárnar eru þrjár, fyrir eins og tveggja ára börn (PDF skjal), þriggja og fjögurra ára börn (PDF skjal) og svo fimm ára börn (PDF skjal). Leikskólar í Kópavogi eru brautryðjendur í gerð árganganámskrár fyrir leikskóla.  

„Að okkar mati er árganganámskráin mikilvæg, meðal annars til að auðvelda kennurum og starfsmönnum að hafa yfirsýn yfir starf leikskólanna. Árganganámskráin er ekki síður mikilvægt gagn til að upplýsa foreldra um hvað felst í góðu leikskólastarfi,“ segir Sesselja Hauksdóttir leikskólafulltrúi bæjarins.

Árganganámskrár leikskólanna er að finna á öllum leikskólum bæjarins. Unnið er eftir árganganámskránum í öllum leikskólum bæjarins , en þar fyrir utan setja leikskólarnir sér stefnu og skólanámskrá sem þeir fylgja í sínu starfi.

Nefnd um endurskoðun námskránna var skipuð þeim Sesselju Hauksdóttur leikskólafulltrúa, Bjarney Magnúsdóttur og Sigrúnu H. Jónsdóttur leikskólastjórum og leikskólakennurunum Guðný Þórisdóttur, Erlu Vigdísi Kristinsdóttur og Dóru Margréti Gunnarsdóttur. Þetta vefsvæði byggir á Eplica