Sumarhátið!

Sumarhátíðin okkar fór fram með mikilli gleði þann 24. júní. Hátíðin hófst á hinu árlega Urðarhólshlaupi, þar sem hver árgangur hljóp stuttan hring á túninu fyrir framan Sunnuhól. Börn og kennarar tóku virkan þátt og voru allir hvattir áfram og fagnað af miklum krafti þegar allir komust í mark. Það má með sanni segja að allir hafi verið sigurvegarar á sínu sviði!
Veðrið lék við okkur og dagurinn var nýttur til hins ýtrasta utandyra. Á leiksvæðunum ríkti líf og fjör. Börnin léku sér í hoppuköstulum, með sápukúlur, fengu andlitsmálningu og prófuðu sig áfram með vatnsliti og annað föndur utandyra. Úrval annarra skemmtilegra leiktilboða stóð til boða og stemningin var dásamleg allan daginn.
Um hálfþrjúleytið komu foreldrar, systkini, ömmur og afar og aðrir í heimsókn, og þá tók við sannkölluð sumarveisla! Boðið var upp á grillaðar pulsur og íþróttanammi. Börnin gátu unnið sér inn „pening“ með því að framkvæma íþróttaæfingar og fyrir þá peninga var hægt að versla sér ís. Þetta vakti mikla kátínu meðal barnanna.
Hápunktur dagsins var heimsókn frá BMX Bros, sem heilluðu alla með æsispennandi sýningu og mögnuðum hjólabragðum. Mikið fjör og aðdáun á hverju andliti!
Við hjá Urðarhóli erum ótrúlega þakklát fyrir góðan dag með yndislegum börnum og gestum. Hjartans þakkir fyrir komuna og þátttökuna.