Heilsuleikskólinn Urðarhóll

Heilsuleikskólinn Urðarhóll er sex deilda leikskóli og er staðsettur við Kópavogsbraut 19 og starfræktur í þremur húsum. Í "stóra" húsinu eru fjórar deildir og þar eru 88 börn og á lóð skólans er annað hús sem heitir Stubbasel og þar eru 19 börn. Austan við skólann er svo þriðja húsið sem heitir Sunnuhóll og þar eru 25 börn. Í heildina eru því 130 börn í skólanum. 

Markmið Heilsuleikskólans Urðarhóls eru að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik.

Næring
Borða hollan og næringarríkan mat - fjalla um mikilvægi fæðuhringsins - börnin verði meðvituð um hollustu og óhollustu matar - matarhefðir verði í hávegum hafðar Hollt fæði er grunnur að almennri heilsu einstaklings s.s. líkamlegri og andlegri vellíðan, þroska, ónæmi og frammistöðu alla ævi. Í æsku er hollt fæði sérstaklega mikilvægt vegna þess að á þessu tímaskeiði fer fram mesti vöxtur og þroski ævinnar. Gæta þarf þess að börn neyti fjölbreyttrar fæðu og nægilegs vökva. Auk þess er lögð áhersla á að nota sem minnst af fitu, sykri og salti sbr. Fæðuhringur Manneldisráðs.

Hreyfing
Í markvissri hreyfiþjálfun eflist alhliða þroski barnsins. Barnið öðlast betri líkamsvitund og góð líkamleg færni leiðir af sér ánægðara barn. Sjálfsöruggt og ánægt barna á auðveldara með að leika sér, og tileinka sér þekkingu. Markviss hreyfiþjálfun hefur einnig áhrif á málþroska og málskilning barna og þar með eykst félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.

  • auka vitneskju um líkamann
  • styrkja sjálfsmynd
  • stuðla að betri hreyfifærni
  • auðvelda samskipti
  • læra hugtök

Sköpun
Barn hefur mikla þörf fyrir að skapa og er að skapa allar stundir í leik sínum. Það að vinna út frá eigin forsendum og með þann efnivið sem það kýs hverju sinni gefur barni færi á að þroska alla hæfileika sína. Skapandi starf eflir gagnrýna hugsun barna, þjálfar rökhugsun og eflir skynjun barns og næmi fyrir umhverfinu.

  • örva sköpunargleði
  • auka hugmyndaflug
  • kynnast mismunandi efniviði og handfjatla hann
  • skynja fegurð í umhverfinu