Urðarhóll 20 ára

Í dag eru 20 ár síðan Heiluleikskólinn Urðarhóll opnaði og 25 ár síðan Skólatröð opnaði en þá varð Heilsustefna Unnar Stefánsdóttur til. Enn í dag er unnið samkvæmt Heilsustefnunni og hún þróast áfram í takt við tímann. Það er ómetanlegt að hafa í húsi allan þann mannauð sem býr í starfsfólki og kennurum skólans. Hér starfar fólk af alúð og fagmennsku með það eitt að leiðarljósi að efla börnin dag frá degi með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun. Ég vil nýta tækifærið að þakka kennurum og starfsfólki innilega fyrir ómetanlegt starf í þágu barna. Það er til fyrirmyndar hve samstilltur hópur stendur á bak við nám barnanna. Jafnvel við erfiðar aðstæður og álag er ómetanlegt fyrir börnin að geta haldið sinni rútínu þrátt fyrir heimsfaraldur.
Við gerðum okkur dagamun í dag þar sem allir mættu í náttfötum og með vasaljós. Búið var að hengja endurskinsmerki í trén í garðinum merkt hverju barni. Um leið og börnin komu fóru þau í að leita að endurskinsmerki sem var merkt þeim og var það partur af læsi að þekkja nafnið sitt en þau yngir voru merkt með mynd. Um klukkan níu var farið í skrúðgöngu um garðinn og safnast saman í brekkunni. Þar sungu við öll saman og börnin komu undirritaðri á óvart með Urðarhólslagi við Waka waka. Ég verð að segja að ég fékk tár í augun að sjá ljómann í augum barnanna. Eftir sönginn héldum við inn í leik og fengum pitsu og ís í hádegismat og var svo að sjálfsögðu afmæliskaka í kaffinu. Þetta var skemmtilegur dagur og ekki að sjá annað en börnin nutu sín í botn.
Kær kveðja Sigrún.
Fréttamynd - Urðarhóll 20 ára Fréttamynd - Urðarhóll 20 ára Fréttamynd - Urðarhóll 20 ára Fréttamynd - Urðarhóll 20 ára

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn